top of page

Hver er Rakel?

Hæ, ég heiti Rakel!

Ég er 31 árs eyjakona, búsett í Hveragerði ásamt dóttur minni, Emilíu Ósk.

Ég útskrifaðist úr Keili árið 2016 sem ÍAK styrktarþjálfari og byrjaði fljótlega að vinna við þjálfun. Ég sat CrossFit Level 1 námskeið og hef sífellt verið að auka við þekkingu mína með fjölmörgum námskeiðum.

Árið 2019 ákvað ég að fara enn lengra í þjálfarastörfum og skráði mig í markþjálfanám, sem hefur svo sannarlega nýst mér vel í bæði þjálfun og samskiptum.

Mesta reynslan mín á þessu sviði kom þó á síðustu tveimur árum, þegar ég þurfti að fara í endurhæfingu eftir að hafa lent harkalega á vegg. Ég var orðin ansi þunglynd, glímdi við andlega erfiðleika og þurfti að endurmeta líf mitt. Í endurhæfingunni tókst mér að byggja mig upp á nýtt og í kjölfarið ákvað ég að hætta alfarið að neyta áfengis – ákvörðun sem hefur reynst ein sú besta í mínu lífi.

 

„Ekkert Kjaftæði“ prógrammið mitt er byggt á þeirri leið sem ég fór til að styrkja mig bæði andlega og líkamlega, og ég brenn fyrir að hjálpa öðrum að losna við „kjaftæði“ úr sínu lífi.

 

Ég hef alla tíð hreyft mig mikið, spilað handbolta og meðal annars verið spinningkennari í fimm ár. Ég kenndi minn fyrsta tíma aðeins 17 ára gömul. Síðustu 10 ár hef ég þjálfað fólk með margvíslegum hætti; unglinga, mömmutíma, eldri borgara og einnig sinnt einkaþjálfun.

 

Ég hef gengið í gegnum mikla erfiðleika sem hafa mótað mig sem þjálfara og hjálpað mér að þróa aðferðir sem nýtast fólki á öllum aldri og öllum stigum lífsins. Reynslan mín er fjölbreytt og ég hef aðstoðað fólk á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn.

 

Þess vegna er ég tilbúin að aðstoða þig við að ná þínum markmiðum, losa þig við hindranir og byggja upp líkamlega og andlega heilsu!

"Það var rosalega þægilegt og auðvelt að kenna öðrum um þegar hlutirnir gengu illa hjá mér.

Það var öðrum að kenna að ég fékk mér köku, öðrum að kenna að ég drakk of mikið, og jafnvel öðrum að kenna að ég fór ekki á æfingu.

Þegar ég horfðist í augu við að þetta væri undir mér komið, þá fór ég að sjá breytingar."

-Rakel Hlyns

bottom of page